Innskráning í Karellen

Tilgangur innra mats er að tryggja að Barnaskólinn leitist við að haga störfum sínum í samræmi við stöðu og þarfir barna eins og best verður á kosið. Niðurstöður og aðgerðir eru ígrundaðar með það í huga að stuðla að þroska, velferð og menntun hvers barns. Upplýsingar úr innra mati varpa ljósi á skólaþróun og árangur, þá þætti sem þarfnast frekari úrlausna og einnig draga þær fram helstu styrkleika starfsins.

Barnaskólinn Hjallastefnunnar í Hafnarfirði tók til starfa haustið 2006 sem útibú frá Barnaskólanum í Garðabæ og sem sjálfstætt starfandi skóli ári síðar. Hugmyndafræði Hjallastefnunnar fangar vel þær lýðræðihugsjónir og þá velferðarstefnu sem aðalnámskrá gunnskóla kveður á um. Skólahúsnæði Barnaskólans er sveigjanlegt þar sem ekkert er niður njörvað eða meitlað í stein. Þannig er húsnæðið liður í þeirri einstaklingsmiðun sem skólinn stendur fyrir – fjölbreytni í fyrirúmi.

Liður í innra mati skólans er að fjölskyldur og starfsfólk starfi saman með hagsmuni og velferð barna að leiðarljósi. Með góðri samvinnu og gagnvirkum upplýsingum um helstu umbætur og styrkleika er stuðlað að farsælu skólastarfi. Ytra mat á vegum menntamálaráðuneytisins fór fram í Barnskólanum vorið 2019. Í kjölfar matsins, ásamt mörgum þáttum, var ákveðið að Barnaskólinn yrði þátttakandi í Skólapúlsinum. Þátttaka í honum útvegar skólastjórnendum, Hjallastefnunni og skólaskrifstofu áreiðanleg, langtímamiðuð, samanburðarhæf og aðgengileg gögn um mikilvæga þætti í skólastarfinu. Með þátttöku verða til gögn sem allir hagsmunaðilar geta stuðst við til endurbóta og frekari umfjöllunnar með hagsmuni barna að leiðaljósi. Á hverju ári er lögð fyrir könnun sem foreldrar/forsjárfólk tekur þátt í. Sérstaklega var tekin ákvörðun um að rýna í alla þætti er varða líðan barna.

Mælingar og eftirfylgni með lestrarárangri er liður í innra mati skólans, þar sem gott læsi í öllum aðstæðum endurspeglar gjarnan líðan og velferð barna. Niðurstöður lesfimiprófa spila þar veigamikinn þátt, rýnt er í þær eftir hverja skimun og 90% viðmið sérstaklega skoðað með tilltiti til aldurs þarfa. Jafnrétti er einnig stór þáttur í velferðarstefnu skólans og því er rýnt sérstaklega í árangur stúlkna og drengja.

Fleiri þættir sem stuðla að velferð nemenda og árangri í skólaþróun liggja til grundvallar þegar innra mat skólans fer fram. Skólastýrur fara árlega í kennslurými að fylgjast með og skrá samkvæmt gátlista sem fangar það helsta sem við kemur kennslu og miðla til kennara. Skráningar og fundir varðandi Mentor, samræmd próf og samvinnu við aðra skóla eru einnig liður í langtímaáætlun matsins.

Matið er viðvarandi verkefni sem lýkur í raun aldrei þó að eins konar uppgjör með niðurstöðum og umbótaáætlun verði til árlega.

1. Skipulag matsins
2. Gagnaöflun samkvæmt áætlun
3. Greining gagna og mat á niðurstöðum
4. Niðurstöður teknar saman og settar fram
5. Umbótaáætlun fylgt eftir og metið


© 2016 - Karellen