Innskráning í Karellen

BSK Hjallabraut

Hjallabraut 55, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-7610, Netfang: barnaskolinnhfj(hjá)hjalli.is
Skólastýrur: Hildur Sæbjörg Jónsdóttir og Ruth Margrét Friðriksdóttir
Fjöldi nemenda er 123 og fjöldi starfsfólks er 33.

Barnaskóli Hjallastefnunnar í Hafnarfirði hóf starfsemi sína haustið 2006 sem útibú frá Barnaskólanum í Garðabæ. Eftir fyrsta starfsárið var sótt um sjálfstætt starfsleyfi fyrir skólann til Menntamálaráðuneytisins og frá haustinu 2007 hefur skólinn verið rekinn sem sjálfstæður barnaskóli fyrir yngsta stig grunnskóla, 1.-4. bekk.

Þann 1. febrúar 2019 tók Barnaskólinn við starfi 5 ára barna af leikskólanum Hjalla og starfar leikskólakjarni þeirra í suðurálmu skólans. Með því að sameina 5 ára leikskólastarfið og yngsta stigið undir sama þak gefst okkur enn frekari tækifæri til þess að brúa bilið milli fyrsta og annars skólastigsins.

Starf Barnaskólans einkennist af faglegum metnaði, jákvæðni, gleði og lausnamiðun starfsfólks skólans þar sem umhverfið er aðlagað að þörfum barnsins. Frá því að Barnaskólinn var útibú frá Garðabæ hefur skólinn þróað frá ári til árs samkennslu milli árganga. Hefur verið leitast við að styrkja slíka kennslu með tilliti til ólíkra þarfa barna án aðgreiningar eftir aldri og námsgetu. Reynslan hefur sýnt okkur að kostirnir við samkennslu eru fleiri en ella. Er hverju barni mætt þar sem það er statt. Um er að ræða félagsmynstur sem sem styrkir ábyrgð, forystu, samhjálp og umburðarlyndi - sem er í takt við það sem við stöndum fyrir og kynjanámskráin okkar kveður á um. Allir græða!

Það er með mikilli tilhlökkun sem við siglum inn í sextánda skólaárið okkar og það fimmtánda sem sjálfstætt starfandi skóli. Við hlökkum til gefandi og gæfuríks samstarfs með börnum og foreldrum.

© 2016 - Karellen