news

Útikennsla á haustmánuðum

10. 11. 2020

Í Barnaskólanum er útistarf og útikennsla í hávegum höfð og kennarar fara gjarnan með hópinn sinn í ósnortna náttúru þegar því er viðkomið. Við skipulag á hópatímum sýna kennarar skapandi vinnubrögð til að fá sem mesta fjölbreytni í útistarfið og samþætta við það kynjanámskránna og aðra námsþætti sem áhersla er lögð á hverju sinni.

Á haustmánuðum hafa 5 ára börn verið að læra um hljóð bókstafanna. Í tengslum við það fór hópur 5 ára drengja á dögunum með kennaranum sínum í fjársjóðsleit í nærumhverfi skólans. Það var ekkert lítið spennandi að fá fjársjóðskort í hendurnar og leita með vinum að vísbendingum í fallega umhverfinu sem umlykur skólann okkar. Að lokum fundu þeir gimsteina í hrauninu með bókstöfum sem þeir þekktu vel og vakti það mikla lukku og hamingju.

© 2016 - Karellen