news

Endurmenntun starfsfólks á grunnskólastigi

24. 08. 2021

Starfsfólk á grunnskólastigi hefur tekið þátt í fjölbreyttri og fræðandi endurmenntun síðustu daga. Þrennt má þó helst nefna og eru það erindi og umræður um lestur, kynjamál og ó – bókastýrða kennslu.

Stóri læsisdagurinn bauð uppá fræðslu og fróðleik í formi erinda frá breiðum hópi fagfólks. Fræðikonurnar Ásthildur Snorradóttir talmeinafræðingur, Steinunn Torfadóttir lektor á Menntavísindasviði HÍ, Helga Sigurmundadóttir aðjunkt á Menntavísindisviði Hí, Bjartey Sigurðardóttir talmeinafræðingur og verkefnistjóri lestur er lífsins leikur í Hafnarfirði og Sigríður Jóna Gunnarsdóttir okkar voru með erindi um lesfimiþjálfun, undirstöðuþætti læsis, orðaforða og málörvun - svo fátt eitt sé nefnt.

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, framhaldsskólakennari og forkona jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands bauð uppá hressandi umræður og "sturlaðar" staðreyndir um stúlkna og drengja menningu. Leitast var eftir svörum og nálgun þegar fagfólk kennir blönduðum hópum - hvað ber að varast og hvað þarf til að styrkja bæði stúlkur og drengi? Í Hjallstefnunni tölum við um blöndun - stundin er vandlega skipulögð með jafnrétti að leiðarljósi. Eins og Hanna segir sjálf: Við þurfum að fræða fólk og skólakerfið ber mikla ábyrgð. Í öruggu rými kennslustofunnar getum við skoðað samfélagið, greint það, rýnt og rætt. Til þess þarf vel undirbúinn kennara og skólasamfélag sem vinnur með jafnréttishugsjóninni í öllum sínum störfum.

Jafningjafræðsla í ó - bókastýrðri kennslu fór fram með virki þátttöku starfsfólks. Ný námskrá var í forgrunni og merking orðanna, hæfniviðmið, leiðir og námsaðlögun var ígrunduð sérstaklega með það í huga að kennsla án hefðbundna námsbóka eru aðal merki skólans. Þá útfæra kennarar kennsluna án hefðbundinna námsbóka, börn útbúa sínar eigin verkefnabækur, byggt er á frumkvæði og sköpun hvers og eins, viðfangsefni eru á ólíku formi og efniviður fjölbreyttur og opinn.© 2016 - Karellen